23.10.2006 | 22:20
Airwaves
Ég er ein af þeim sem fór á Airwaves. Mikið var bærinn lifandi og skemmtilegur þessa löngu- helgi. Mér fannst allir vera með bros á vör, hvort sem fólk var að taka þátt í hátíðinni, kíkja á off-venue gigg eða bara á vappi í bænum.
Það sem mér finnst standa uppúr er hvað það er nú til mikið af flottu tónlistarfólki á þessu litla skeri. Það er til slatti af arfaslöku liði líka, en mér tókst að sjá nánast bara flott lið. Lay Low og Pétur Ben voru bæði frábær. Ég sá Pétur meira að segja tvisvar. Annað skiptið í Listasafninu með bandi og það var mjög flott og krafmikið. Síðan sá ég hann á Dillon, einan með gítarinn og það var mjög flott. Hann hefur mikinn sjarma, flotta rödd og ég fíla tónlistina hans.
Ég heyrði líka Jóhann Jóhannsson í Fríkirkjunni og voru það mjög fallegir tónleikar. Það náðist mjög falleg stemmning og ég sveif í burtu inní ævintýraheim með tónunum hans.
Leaves var ég að sjá í fyrsta skipti á tónleikum og líkaði vel. Flottir á svið og þéttir.
Ég skemmti mér líka konunglega á Kaiser Chiefs. Hvað einn maður getur hoppað og sungið!!! Þvílíkt stuð og ekki verra að geta gaulað með. Eins var ótrúlega gaman að sjá The Whitest Boy Alive, einkum hafandi verið Kings of Convenience aðdáandi.
Þetta var nú svona það helsta að ég held.
Mér fannst líka mjög gaman að hitta Marysu sem er vinkona mín af MySpace sem ég hef verið í bréfaskrifum við sl. mánuð eða svo. Hún kom á hátíðina með Dave, manninum sínum, og þau eru indælasta fólk sem ég hef hitt! Ég hitti þau á JJ tónleikunum í Fríkirkjunni og við fórum svo á Næstu Grös að borða dýrindismáltíð. Það var reglulega gaman og hressandi að spjalla við þau um heima og geima. Ég vona innilega að við eigum eftir að hittast aftur því við vorum svo langt frá því að vera uppiskroppa með umræðuefni.
Lillý var minn félagi á Airwaves og gekk okkur merkilega vel að koma okkur saman um hvert skyldi haldið og á hvað skyldi hlusta. Maður er ekki fátækur á meðan maður á eins frábæra vinkonu og Lillý. Við héngum líka mikið með Beggu og Ísgerði og var það nú ekki félagsskapur af verri endanum. Þessar þrjár dömur voru sko bara til að gera góða hátíð frábæra og kann ég þeim bestu þakkir fyrir =D
Yfir og út
Gunna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2006 | 22:45
Nýjar myndir
Ég var að setja inn nýjar myndir og hendi líka öðru hvoru inn gömlum myndum.
Nú er hægt að senda inn ummæli um myndirnar (kommenta á myndir), ég hefði ósköp gaman af því ef þið gerðuð það =D
Bestu kveðjur
Gunna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 22:47
Börn
Sá myndina hans Ragnars Bragasonar, Börn, áðan.
Þetta er án efa best leikna íslenska kvikmyndin sem ég hef séð og alveg með þeim bestu leiknu yfirleitt. Mér fannst hún líka áleitin efnislega og á tímabili þá langaði mig að labba út, var ekki að treysta mér í svona tilfinningahark eftir nokkuð dramatískan dag í eigin lífi. Mig vantar sárlega að ræða þessa mynd svo endilega látið mig vita hvað ykkur fannst. Má ræða þetta yfir kaffibolla á næstu dögum. Gæti reyndar trúað við Anna Björk ræðum þetta aðeins í fyrramálið í heitapottinum. En hún er alltaf búin að ræða málin svo mikið við Magnús og komin svo djúpt í pælinguna að ég hljóma hálf kjánalega.
Ég fór líka í smá bíltúr í dag og gerði smá djók í Sunnu og Einari og vinum þeirra. Setti kjánalegan miða á bílinn þeirra. Veit ekki hvort þau hafi fattað þetta en er smá stressuð yfir að hafa ekkert heyrt í þeim. Á miðanum stóð:
I really like ur car!
It's so cool.
Call me
xox
69? ????
(símanúmerið hennar Sunnu)
Mér og meðsekum fannst þetta allavega ótrúlega fyndið. Svo var farið á Sægreifann og etin Humarsúpa og grillaður Skósóli eða Sólkoli eða einhver fiskur með álíka undarlegu nafni. Þetta var herramanns matur og umhverfið sérdeilis skemmtilegt. Ég mæli með því við hvern þann sem ekki hefur prófað að fá sér að eta þarna.
Friður sé með yður
Gunna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2006 | 01:12
Elli kerling
Ég held að ég hafi verið að finna fyrsta gráa hárið í hausnum á mér. Ég er nú ekkert hrikalega hrærð yfir þessum fundi. Finnst það samt svoltíð óréttlátt að ég sé farin að grána þó ég sé enn að kreista unglingabólur.
Mér er sagt að föðuramma mín hafi nánast ekkert verið farin að grána þegar hún lést rúmlega níræð að aldri. Ég hef greinilega ekki erft þessi góðu gen, þó ég að örðu leiti hafa fengið útlitið þaðan. Til að mynda skökku tennurnar og óeðlilega löngu tærnar. Ég get þó ekki sakast við móður mína því ég man ekki eftir að hún hafi verið með eitt einasta grátt hár fyrr en vel eftir fimmtugt. Ég verð því að draga þá ályktun að líferni mitt orsaki þessi ótímabæru öldrunar einkenni. Nema auðvitað að allt þetta tal sé út af engu og þetta eina hár hafi hreinlega upplitast í klórnum í Vesturbæjarlauginni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.8.2006 | 23:12
Gott að vera glaður
Ég er glöð. Ég átti svo fádæma góða helgi með SuSoGu genginu í sumarbústað í Skorradal. Ég er svo ánægð með að hafa farið í Kennó, þó ekki væri nema fyrir það að fá að kynnast þessum náttúrusnillingum.
Það var mikið spilað í bústaðnum og svo var líka spáð; framtíðin björt og skyggni ágætt. Svo var auðvitað talað þar til okkur verkjaði í kjálkana og þá var bara farið í pottinn og sólin sleikt.. já og etið á sig gat. Algjör draumur!!!
Setti inn nokkrar myndir af ferðinni.
Takk, stelpurassarnir mínir, fyrir góðahelgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2006 | 20:33
Kertafleyting
Fór með Önnu og Magnúsi niður að Tjörn á miðvikudaginn. Þar var verið að fleyta kertum til að minnast hörmunganna í Hirosima og Nakasaki 1945, eins og gert er á hverju ári.
Athöfnin var falleg og hverjum manni hollt að staldra við, taka sér stund frá amstri hversdagsins og hugsa um það sem stríð gerir fólki. Kannski ekki þér (eða hvað?), en svo ótal mörgum í þessum heimi.
Ræðumaður kvöldsins var Guðrún Margrét Guðmundsdóttir og þótti mér ræða hennar kjarnyrt og áleitin. Guðrún er, að ég held, mannfræðingur að mennt og snéri nýlega heim frá Líbanon. Hún talaði af mikilli tilfinningu, ég komst við.
Ég man eftir því að hafa sungið lag sem hét Börn biðja um frið þegar ég var 8 ára í skólakór Laugarnesskóla. Ég skyldi ekki stríð þá og geri það eigilega ekki heldur nú. Þó hef ég lesið mikið um þetta efni, horft á marga innlenda- og erlenda- fréttaþætti og tekið þátt í fjölda rökræðna um stríð og heimsdeilur síðan.
Enn geysa stríð og svo margir eiga um sárt að binda. Fólk sem ekki hefur kosið að taka þátt eða á kost á að komast undan árásum. Ég skil ekki af hverju það er til fólk sem kýs þetta ástand, skil ekki af hverju við leifum þetta.
Einföld og barnaleg?
Ég tók nokkrar myndir af kertafleytingunni og hef sett þær í albúm hér til hliðar.
Bloggar | Breytt 13.8.2006 kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.8.2006 | 18:28
Fjaran
Ég fór í stutta fjöruferð áðan með mömmu, Siggu, Ingva og Mikael. Það var indælt. Blés nokkuð á okkur en það var bara ágætt að láta djammbullið fjúka út úr hausnum á sér.
Mamma og Sigga tíndu sef af miklum móð á meðan Mikael mokaði krabba-polla í fjöruborðinu. Ég tók myndir og fylgdist með fólkinu mínu.
Mér líður svo vel við sjóinn. Hef alltaf haft hafið í bakgarðinum hjá mér. Held ég hafi samt ekki gert mér grein fyrir því hversu miklu máli það skiptir mig fyrr en ég fór í ferðalag um Suð-austur Evrópu fyrir 2 árum síðan. Við sáum ekki sjóinn í nokkrar vikur. Þegar við nálguðumst hann svo í Thessaloniki þá fannst mér eins og loftið væri ferskara og heilnæmara en það hafði verið fram að þessu í ferðinni. Það rofaði til í huganum og heimurinn varð allur skýrari og fallegri. Lífið blasti við, endalausir möguleikar.
Ég held að ég upplifi einskonar innilokunarkennd viti ég ekki af úthafi einhversstaðar nálægt mér, helst í göngufæri. Kannski er þetta eðli eyjaskeggja. Ég hef allavega heyrt fleiri tala um þetta.
Já, mér þykir vænt um sjóinn samt óttast ég hann líka mikið. Það er af sömu ástæðu. Mér finnst það frelsandi að vita hvað hafið er óendanlega stórt, víðfemt og djúpt, en um leið hræðilegt.
Bloggar | Breytt 8.8.2006 kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.7.2006 | 22:04
Ganga að Glym
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2006 | 20:19
Sambýlið Hringbraut
Ég bý í einskonar kommúnu. Hljómar hippalega; frjálsar ástir og eiturlyfjaneysla, sú er þó ekki raunin.
Hér er hins vegar ansi góð stemming. Fjórar ungar konur og einn karlmaður. Mér fannst þetta nú örlítið uggvænlegt áður en ég flutti inn. "Hvernig getur þetta unga par hugsað sér að hafa einhverja álfa búandi inn á sér?", "Verður hér nokkurntíma flóafriður?".
Hér eru hins vegar allir félagar. Mér líkar það afar vel að koma heim og eiga oftar en ekki kost á góðum félagsskap. Það er svo ekkert mál að fá næði ef maður kýs það fremur. Ég hefði aldrei trúað að þetta gæti gengið svona vel.
Það sem er einna skemmtilegast við þetta heimili er að hér býr svo ólíkt fólk. Parið er heimspekilega þenkjandi, heimsbókmenntalesandi (er ekki alveg hægt að segja það?) og viðræðið ungt fólk. Ekkert nema gott um það að segja, aldrei nein lognmolla í kringum þau. Mér finnst það ólýsanlega gaman að hitta á parið þegar það er í gírnum og tala bara og tala. Það er líka uppfræðandi því þau eru svo hrikalega vel með á nótunum! Sænska stúlkan er nokkuð yngri en ég, ferlega indæl og hún er vel inni í öllu sem er að gerast í tónlist. Ég heyri margt skemmtilegt hjá henni og svo finnst okkur stundum gott að klessa okkur saman fyrir framan sjónvarpið í andleysinu. Kanadísku stúlkuna þekki ég minna. Hún er samt líka mjög indæl og hressileg. Er að læra íslensku og finnst gaman að ræða um málin á ástkæra ilhýra. Mér finnst nú heldur ekki leiðilegt að liðsinna henni með tungumálið.
Á föstudaginn síðasta bjuggum við sambýlingarnir til sushi saman og átum og drukkum af hjartans lyst/list. Mikið var það nú gaman og gott. Þetta var líka í fyrsta sinn sem við ákváðum að taka frá tíma fyrir hvert annað og gera eitthvað saman, kynnast.
Nýjasta albúmið hér er með nokkrum myndum úr matarboðinu. Því miður stoppaði svenska flickan þó of stutt til þess að ég næði að festa hana á...eh...minniskortið.
Kv. G
Bloggar | Breytt 4.7.2006 kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2006 | 23:01
Gott að eiga...
... hérna stað til þess að henda inn myndum. Finnst ólíklegat að ég muni nenna að skrifa nokkuð á þessa síðu. Kemur í ljós.
Kv. G
Bloggar | Breytt 13.4.2006 kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)