Tjón og jól

Ástæðan fyrir því að ekkert hefur spurst til mín á þessum vettvangi er sú að tölvan mín hefur sungið sitt síðasta.  Hún var ekki það eina sem klikkaði, síminn minn dó líka en það reyndist tiltölulega auðvelt að ráða bót á því. Erfiðara að komast yfir nýja tölvu, nema eitthvert ykkar þekki mann sem þekki mann sem... Svo var hjólinu mínu stolið en það er svo sem ekki svo mikill missir af þeim garmi.

Þessi ólukka virðist elta fleiri en mig því hrærivélin hennar mömmu bilaði um daginn í miðjum jólabakstinum og þótti kerlu það heldur bagalegt. Sagðist ekki trúa því að hún ætlaði að fara að bregðast sér núna eftir 30 ára dygga þjónustu. Við sátum systurnar, Sigga og ég, ásamt Mikka inní eldhúsi hjá ömmu þar sem hún bauð uppá smákökur úr hnoðuðu deigi, því ekkert var hægt að hræra.  Við föndruðum jólakort og rifjuðum upp gömul jól, Mikki þagði, upptekinn við að reyna að losa fingurna sem hann var búinn að líma saman og festa á kort. Svo kom þögn á meðan englarnir flugu yfir og þegar þeir voru farnir framhjá dæsti mamm og sagði: Já, ég trúi ekki að Helvítis vélin skyldi klikka. Þá fyrst heyrist í Mikka: Amma þó maður má ekki segja klikkað! Ekkert hafði sunnudagaskóladrengurinn (sem vill bara láta syngja drottinn er minn hirðir fyrir sig fyrir svefninn) við það að athuga að amma hans segði helvítis.

Þess má geta að þetta sama kvöld fórum við systur á Vivaldi tónleika í F&H-kirkju og Ísold var boðið með sem þýddi að litla dýrið vildi líka koma. Við reyndum að tala um fyrir honum en hann var harðákveðinn. Eftir klukkutímalanga tónleikana, sem börnin bæði dottuðu yfir, spurðum við systur þau svo hvernig þau hefðu skemmt sér. Ísold sagði þá hafa verið góða en fulllanga. Mikki sagði bara um þessa hátíðlegu Kristilegu tónleika: Jújú, mér fannst þeir bara DJÖFULLI skemmtilegir.

Nóg um það. Jólaundirbúningurinn á fullu. Nei nei svo sem ekki. Ég er búin að föndra jólakortin en nenni ekki að skrifa þau og finna heimilisföngin sem mig vantar. Þið megið endilega senda mér þau bara í smsi. Ég er búin að versla tvær gjafir en gerði það reyndar um miðjan nóvember og hef ekki hugsað um gjafakaup síðan. Svo minn jólaundirbúningur hingað til felst fyrst og fremst í því að háma í mig hnoðdeigs-smákökurnar hennar mömmu, eftir vinnu. Svo föndra ég auðvitað heil ósköp með börnunum í vinnunni.

Jæja, ég má ekki tefja þess lánstölvu lengur.

Kv. Gunna

P.s. Risa knús til Soffíu sem ég held örugglega að sé eina manneskjan sem les þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bara ekki rétt!

Gunnar Geir (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 02:21

2 identicon

jæja fer ekki að koma tími á nýjan pistil? Svona í tilefni nýs árs?

Lynja

Lynja (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband