3.7.2006 | 20:19
Sambýlið Hringbraut
Ég bý í einskonar kommúnu. Hljómar hippalega; frjálsar ástir og eiturlyfjaneysla, sú er þó ekki raunin.
Hér er hins vegar ansi góð stemming. Fjórar ungar konur og einn karlmaður. Mér fannst þetta nú örlítið uggvænlegt áður en ég flutti inn. "Hvernig getur þetta unga par hugsað sér að hafa einhverja álfa búandi inn á sér?", "Verður hér nokkurntíma flóafriður?".
Hér eru hins vegar allir félagar. Mér líkar það afar vel að koma heim og eiga oftar en ekki kost á góðum félagsskap. Það er svo ekkert mál að fá næði ef maður kýs það fremur. Ég hefði aldrei trúað að þetta gæti gengið svona vel.
Það sem er einna skemmtilegast við þetta heimili er að hér býr svo ólíkt fólk. Parið er heimspekilega þenkjandi, heimsbókmenntalesandi (er ekki alveg hægt að segja það?) og viðræðið ungt fólk. Ekkert nema gott um það að segja, aldrei nein lognmolla í kringum þau. Mér finnst það ólýsanlega gaman að hitta á parið þegar það er í gírnum og tala bara og tala. Það er líka uppfræðandi því þau eru svo hrikalega vel með á nótunum! Sænska stúlkan er nokkuð yngri en ég, ferlega indæl og hún er vel inni í öllu sem er að gerast í tónlist. Ég heyri margt skemmtilegt hjá henni og svo finnst okkur stundum gott að klessa okkur saman fyrir framan sjónvarpið í andleysinu. Kanadísku stúlkuna þekki ég minna. Hún er samt líka mjög indæl og hressileg. Er að læra íslensku og finnst gaman að ræða um málin á ástkæra ilhýra. Mér finnst nú heldur ekki leiðilegt að liðsinna henni með tungumálið.
Á föstudaginn síðasta bjuggum við sambýlingarnir til sushi saman og átum og drukkum af hjartans lyst/list. Mikið var það nú gaman og gott. Þetta var líka í fyrsta sinn sem við ákváðum að taka frá tíma fyrir hvert annað og gera eitthvað saman, kynnast.
Nýjasta albúmið hér er með nokkrum myndum úr matarboðinu. Því miður stoppaði svenska flickan þó of stutt til þess að ég næði að festa hana á...eh...minniskortið.
Kv. G
Athugasemdir
Skemmtileg frásögn. Ég var svo heppinn að gista þarna nokkrar nætur í maí. Afbragðs stemmning og gott fólk.
Gunnar Geir
Gunnar Geir (IP-tala skráð) 15.7.2006 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.